Postulasagan. Chapter 17
1 Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku. Þar áttu Gyðingar samkundu.
2 Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,
3 lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. Hann sagði: 'Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur.'
4 Nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas, auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar.
5 En Gyðingar fylltust afbrýði og fengu með sér götuskríl, æstu til uppþota og hleyptu borginni í uppnám. Þustu þeir að húsi Jasonar og vildu færa þá fyrir lýðinn.
6 En þegar þeir fundu þá ekki, drógu þeir Jason og nokkra bræður fyrir borgarstjórana og hrópuðu: 'Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað,
7 og Jason hefur tekið á móti þeim. Allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús.'
8 Og þeir vöktu óhug með fólkinu og einnig borgarstjórunum með þessum orðum.
9 Slepptu þeir ekki þeim Jasoni fyrr en þeir höfðu látið þá setja tryggingu.
10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga.
11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.
12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar.
13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar.
14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir.
15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans.
16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum.
17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans.
18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: 'Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?' Aðrir sögðu: 'Hann virðist boða ókennda guði,'
19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: 'Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með?
20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er.'
21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.
22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: 'Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn,
23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði`. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður.
24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð.
25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.
26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra.
27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.
28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ,Því að vér erum líka hans ættar.`
29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna.
30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum,
31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.'
32 Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: 'Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.'
33 Þannig skildi Páll við þá.
34 En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.