2. Mósebók. Chapter 10
1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra
2 og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er Drottinn.'
3 Síðan gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og sögðu við hann: 'Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: ,Hve lengi vilt þú færast undan að auðmýkja þig fyrir mér?
4 Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér, því að færist þú undan að leyfa fólki mínu að fara, þá skal ég á morgun láta engisprettur færast inn yfir landamæri þín.
5 Og þær skulu hylja yfirborð landsins, svo að ekki skal sjást til jarðar. Skulu þær upp eta leifarnar, sem bjargað var og þér eigið eftir óskemmdar af haglinu, og naga öll tré yðar, sem spretta á mörkinni.
6 Þær skulu fylla hús þín og hús allra þjóna þinna og hús allra Egypta, og hafa hvorki feður þínir né feður feðra þinna séð slíkt, frá því þeir fæddust í heiminn og allt til þessa dags.'` Síðan sneri hann sér við og gekk út frá Faraó.
7 Þá sögðu þjónar Faraós við hann: 'Hversu lengi á þessi maður að verða oss að meini? Gef mönnunum fararleyfi, að þeir megi þjóna Drottni Guði sínum! Veistu ekki enn, að Egyptaland er í eyði lagt?'
8 Þá voru þeir Móse og Aron sóttir aftur til Faraós og sagði hann við þá: 'Farið og þjónið Drottni Guði yðar! En hverjir eru það, sem ætla að fara?'
9 Móse svaraði: 'Vér ætlum að fara með börn vor og gamalmenni. Með sonu vora og dætur, sauðfé vort og nautgripi ætlum vér að fara, því að vér eigum að halda Drottni hátíð.'
10 En hann sagði við þá: 'Svo framt sé Drottinn með yður, sem ég gef yður og börnum yðar fararleyfi! Sannlega hafið þér illt í huga.
11 Eigi skal svo vera. Farið þér karlmennirnir og þjónið Drottni, því að um það hafið þér beðið.' Síðan voru þeir reknir út frá Faraó.
12 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Rétt út hönd þína yfir Egyptaland, svo að engisprettur komi yfir landið og upp eti allan jarðargróða, allt það, sem haglið eftir skildi.'
13 Þá rétti Móse út staf sinn yfir Egyptaland. Og Drottinn lét austanvind blása inn yfir landið allan þann dag og alla nóttina, en með morgninum kom austanvindurinn með engispretturnar.
14 Engispretturnar komu yfir allt Egyptaland, og mesti aragrúi af þeim kom niður í öllum héruðum landsins. Hafði aldrei áður verið slíkur urmull af engisprettum, og mun ekki hér eftir verða.
15 Þær huldu allt landið, svo að hvergi sá til jarðar, og þær átu allt gras jarðarinnar og allan ávöxt trjánna, sem haglið hafði eftir skilið, svo að í öllu Egyptalandi varð ekkert grænt eftir, hvorki á trjánum né á jurtum merkurinnar.
16 Þá gjörði Faraó í skyndi boð eftir Móse og Aroni og sagði: 'Ég hefi syndgað á móti Drottni Guði yðar, og á móti yður.
17 En fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta sinn og biðjið Drottin, Guð yðar, að hann fyrir hvern mun létti þessari voðaplágu af mér.'
18 Síðan gekk hann út frá Faraó og bað til Drottins.
19 Þá sneri Drottinn veðrinu í mjög hvassan vestanvind, sem tók engispretturnar og fleygði þeim í Rauðahafið, svo að ekki var eftir ein engispretta nokkurs staðar í Egyptalandi.
20 En Drottinn herti hjarta Faraós, svo að hann leyfði ekki Ísraelsmönnum burt að fara.
21 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland.'
22 Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga.
23 Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra.
24 Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: 'Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður.'
25 En Móse svaraði: 'Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum.
26 Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað.'
27 En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi.
28 Og Faraó sagði við hann: 'Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja.'
29 Móse svaraði: 'Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu.'