2. Mósebók. Chapter 30
1 Þú skalt gjöra altari til að brenna á reykelsi. Það skalt þú búa til af akasíuviði.
2 Það skal vera álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það.
3 Þú skalt leggja það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og þú skalt gjöra brún af gulli á því allt í kring.
4 Þú skalt gjöra á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin. Þú skalt gjöra þá á báðum hliðum þess, þeir skulu vera til að smeygja í stöngum til að bera það á.
5 Og þú skalt gjöra stengurnar af akasíuviði og gullleggja þær.
6 Þú skalt setja það fyrir framan fortjaldið, sem er fyrir sáttmálsörkinni, fyrir framan lokið, sem er yfir sáttmálinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig.
7 Og Aron skal brenna ilmreykelsi á því, hann skal brenna því á hverjum morgni, þegar hann tilreiðir lampana.
8 Þegar Aron setur upp lampana um sólsetur, skal hann og brenna reykelsi. Það skal vera stöðug reykelsisfórn frammi fyrir Drottni hjá yður frá kyni til kyns.
9 Þér skuluð ekki fórna annarlegu reykelsi á því, né heldur brennifórn eða matfórn, og eigi megið þér dreypa dreypifórn á því.
10 Aron skal friðþægja fyrir horn þess einu sinni á ári. Með blóðinu úr syndafórn friðþægingarinnar skal hann friðþægja fyrir það einu sinni á ári hjá yður frá kyni til kyns. Það er háheilagt fyrir Drottni.'
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 'Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun, þá skulu þeir hver um sig greiða Drottni gjald til lausnar lífi sínu, þegar þeir eru kannaðir, svo að engin plága komi yfir þá vegna liðskönnunarinnar.
13 Þetta skal hver sá gjalda, sem talinn er í liðskönnun: hálfan sikil eftir helgidómssikli
14 Hver sem talinn er í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, skal greiða Drottni fórnargjöf.
15 Hinn ríki skal eigi greiða meira og hinn fátæki ekki minna en hálfan sikil, er þér færið Drottni fórnargjöf til þess að friðþægja fyrir sálir yðar.
16 Og þú skalt taka þetta friðþægingargjald af Ísraelsmönnum og leggja það til þjónustu samfundatjaldsins. Það skal vera Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni, að það friðþægi fyrir sálir yðar.'
17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
18 'Þú skalt gjöra eirker með eirstétt til þvottar, og þú skalt setja það milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það,
19 og skulu þeir Aron og synir hans þvo hendur sínar og fætur úr því.
20 Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið, skulu þeir þvo sér úr vatni, svo að þeir deyi ekki; eða þegar þeir ganga að altarinu til þess að embætta, til þess að brenna eldfórn Drottni til handa,
21 þá skulu þeir þvo hendur sínar og fætur, svo að þeir deyi ekki. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál fyrir hann og niðja hans frá kyni til kyns.'
22 Drottinn talaði við Móse og sagði:
23 'Tak þér hinar ágætustu kryddjurtir, fimm hundruð sikla af sjálfrunninni myrru, hálfu minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanelberki og tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmreyr,
24 og fimm hundruð sikla af kanelviði eftir helgidómssikli og eina hín af olífuberjaolíu.
25 Af þessu skalt þú gjöra heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, til búin að hætti smyrslara. Skal það vera heilög smurningarolía.
26 Með þessu skalt þú smyrja samfundatjaldið og sáttmálsörkina,
27 borðið með öllum áhöldum þess, ljósastikuna með öllum áhöldum hennar og reykelsisaltarið,
28 brennifórnaraltarið með öllum áhöldum þess, kerið og stétt þess.
29 Og skalt þú vígja þau, svo að þau verði háheilög. Hver sem snertir þau, skal vera helgaður.
30 Þú skalt og smyrja Aron og sonu hans og vígja þá til að þjóna mér í prestsembætti.
31 Þú skalt tala til Ísraelsmanna og segja: ,Þetta skal vera mér heilög smurningarolía hjá yður frá kyni til kyns.`
32 Eigi má dreypa henni á nokkurs manns hörund, og með sömu gerð skuluð þér eigi til búa nein smyrsl. Helg er hún, og helg skal hún yður vera.
33 Hver sem býr til sams konar smyrsl eða ber nokkuð af þeim á óvígðan mann, skal upprættur verða úr þjóð sinni.'
34 Drottinn sagði við Móse: 'Tak þér ilmjurtir, balsam, marnögl og galbankvoðu, ilmjurtir ásamt hreinu reykelsi. Skal vera jafnt af hverju.
35 Og þú skalt búa til úr því ilmreykelsi að hætti smyrslara, salti kryddað, hreint og heilagt.
36 Og nokkuð af því skalt þú mylja smátt og leggja það fyrir framan sáttmálið í samfundatjaldinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. Það skal vera yður háheilagt.
37 Reykelsi, eins og þú til býr með þessari gerð, megið þér ekki búa til handa yður sjálfum. Skalt þú meta það sem Drottni helgað.
38 Skyldi einhver búa til nokkuð þvílíkt til þess að gæða sér með ilm þess, skal hann upprættur verða úr þjóð sinni.'