2. Mósebók. Chapter 26
1 Tjaldbúðina skalt þú gjöra af tíu dúkum úr tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Skalt þú búa til kerúba á þeim með listvefnaði.
2 Hver dúkur skal vera tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður; allir skulu dúkarnir vera jafnir að máli.
3 Fimm dúkarnir skulu tengjast saman hver við annan, og eins skal tengja saman hina fimm dúkana sín í milli.
4 Og þú skalt búa til lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni, og eins skalt þú gjöra á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni.
5 Skalt þú búa til fimmtíu lykkjur á öðrum dúknum, og eins skalt þú gjöra fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem er í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar standist á hver við aðra.
6 Og þú skalt gjöra fimmtíu króka af gulli og tengja saman dúkana hvern við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin verði ein heild.
7 Þú skalt og gjöra dúka af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu.
8 Hver dúkur skal vera þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður; allir ellefu dúkarnir skulu vera jafnir að máli.
9 Og þú skalt tengja saman fimm dúka sér og sex dúka sér, en sjötta dúkinn skalt þú brjóta upp á sig á framanverðu tjaldinu.
10 Og þú skalt búa til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar.
11 Og þú skalt gjöra fimmtíu eirkróka og krækja krókunum í lykkjurnar, og tengja svo saman tjaldið, að ein heild verði.
12 En afgangurinn, sem yfir hefir af tjalddúkunum, hálfi dúkurinn, sem er umfram, skal hanga niður af tjaldbúðinni baka til.
13 En sú eina alin beggja vegna, sem yfir hefir af tjalddúkunum á lengdina, skal hanga niður af hliðum tjaldbúðarinnar báðumegin til þess að byrgja hana.
14 Þú skalt enn gjöra þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.
15 Og þú skalt gjöra þiljuborðin í tjaldbúðina af akasíuviði, og standi þau upp og ofan.
16 Hvert borð skal vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd.
17 Á hverju borði skulu vera tveir tappar, báðir sameinaðir. Svo skalt þú gjöra á öllum borðum tjaldbúðarinnar.
18 Og þannig skalt þú gjöra borðin í tjaldbúðina: Tuttugu borð í suðurhliðina,
19 og skalt þú búa til fjörutíu undirstöður af silfri undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sína fyrir hvorn tappa.
20 Og eins í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina: tuttugu borð
21 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð.
22 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, skalt þú gjöra sex borð.
23 Og tvö borð skalt þú gjöra í búðarhornin á afturgaflinum.
24 Og þau skulu vera tvöföld að neðan og sömuleiðis halda fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig skal þeim háttað vera hvorum tveggja, á báðum hornum skulu þau vera.
25 Borðin skulu vera átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.
26 Því næst skalt þú gjöra slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar
27 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri.
28 Miðsláin skal vera á miðjum borðunum og liggja alla leið, frá einum enda til annars.
29 Og borðin skalt þú gullleggja, en hringana á þeim, sem slárnar ganga í, skalt þú gjöra af gulli. Þú skalt og gullleggja slárnar.
30 Og þú skalt reisa tjaldbúðina eins og hún á að vera og þér var sýnt á fjallinu.
31 Þú skalt og gjöra fortjald af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Skal það til búið með listvefnaði og kerúbar á.
32 Og þú skalt festa það á fjóra stólpa af akasíuviði, gulli lagða, með nöglum í af gulli, á fjórum undirstöðum af silfri.
33 En þú skalt hengja fortjaldið undir krókana og flytja sáttmálsörkina þangað, inn fyrir fortjaldið, og skal fortjaldið skilja milli hins heilaga og hins allrahelgasta hjá yður.
34 Þú skalt setja lokið yfir sáttmálsörkina í hinu allrahelgasta.
35 En borðið skalt þú setja fyrir utan fortjaldið og ljósastikuna gagnvart borðinu við suðurhliðvegg búðarinnar, en lát borðið vera við norðurhliðvegginn.
36 Þú skalt og gjöra dúkbreiðu fyrir dyr tjaldsins af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofna.
37 Og fyrir dúkbreiðuna skalt þú gjöra stólpa af akasíuviði og gullleggja þá. Naglarnir í þeim skulu vera af gulli, og þú skalt steypa fimm undirstöður af eiri undir þá.