1. Mósebók. Chapter 48
1 Eftir þetta bar svo til, að Jósef var sagt: 'Sjá, faðir þinn er sjúkur.' Tók hann þá með sér báða sonu sína, Manasse og Efraím.
2 Þetta tjáðu menn Jakob og sögðu: 'Sjá, Jósef sonur þinn kemur til þín.' Þá hreysti Ísrael sig og settist upp í rúminu.
3 Jakob sagði við Jósef: 'Almáttugur Guð birtist mér í Lúz í Kanaanlandi og blessaði mig
4 og sagði við mig: ,Sjá, ég vil gjöra þig frjósaman og margfalda þig og gjöra þig að fjölda þjóða og gefa niðjum þínum eftir þig þetta land til ævinlegrar eignar.`
5 Og nú skulu báðir synir þínir, sem þér fæddust í Egyptalandi áður en ég kom til þín til Egyptalands, heyra mér til. Efraím og Manasse skulu heyra mér til, eins og Rúben og Símeon.
6 En það afkvæmi, sem þú hefir getið eftir þá, skal tilheyra þér. Með nafni bræðra sinna skulu þeir nefndir verða í erfð þeirra.
7 Þegar ég kom heim frá Mesópótamíu, missti ég Rakel í Kanaanlandi á leiðinni, þegar ég átti skammt eftir ófarið til Efrata, og ég jarðaði hana þar við veginn til Efrata, það er Betlehem.'
8 Þá sá Jakob sonu Jósefs og mælti: 'Hverjir eru þessir?'
9 Og Jósef sagði við föður sinn: 'Það eru synir mínir, sem Guð hefir gefið mér hér.' Og hann mælti: 'Leiddu þá til mín, að ég blessi þá.'
10 En Ísrael var orðinn sjóndapur af elli og sá ekki. Og Jósef leiddi þá til hans, og hann kyssti þá og faðmaði þá.
11 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Ég hafði eigi búist við að sjá þig framar, og nú hefir Guð meira að segja látið mig sjá afkvæmi þitt.'
12 Og Jósef færði þá frá knjám hans og hneigði ásjónu sína til jarðar.
13 Jósef tók þá báða, Efraím sér við hægri hönd, svo að hann stóð Ísrael til vinstri handar, og Manasse sér við vinstri hönd, svo að hann stóð Ísrael til hægri handar, og leiddi þá til hans.
14 En Ísrael rétti fram hægri hönd sína og lagði á höfuð Efraím, þótt hann væri yngri, og vinstri hönd sína á höfuð Manasse. Hann lagði hendur sínar í kross, því að Manasse var hinn frumgetni.
15 Og hann blessaði Jósef og sagði: 'Sá Guð, fyrir hvers augliti feður mínir Abraham og Ísak gengu, sá Guð, sem hefir varðveitt mig frá barnæsku allt fram á þennan dag,
16 sá engill, sem hefir frelsað mig frá öllu illu, hann blessi sveinana, og þeir beri nafn mitt og nafn feðra minna Abrahams og Ísaks, og afsprengi þeirra verði stórmikið í landinu.'
17 En er Jósef sá, að faðir hans lagði hægri hönd sína á höfuð Efraím, mislíkaði honum það og tók um höndina á föður sínum til þess að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse.
18 Og Jósef sagði við föður sinn: 'Eigi svo, faðir minn, því að þessi er hinn frumgetni. Legg hægri hönd þína á höfuð honum.'
19 En faðir hans færðist undan því og sagði: 'Ég veit það, sonur minn, ég veit það. Einnig hann mun verða að þjóð og einnig hann mun mikill verða, en þó mun yngri bróðir hans verða honum meiri, og afsprengi hans mun verða fjöldi þjóða.'
20 Og hann blessaði þá á þessum degi og mælti: 'Með þínu nafni munu Ísraelsmenn óska blessunar og segja: ,Guð gjöri þig sem Efraím og Manasse!'` Hann setti þannig Efraím framar Manasse.
21 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Sjá, nú dey ég, en Guð mun vera með yður og flytja yður aftur í land feðra yðar.
22 En ég gef þér fram yfir bræður þína eina fjallsöxl, sem ég hefi unnið frá Amorítum með sverði mínu og boga.'