1. Mósebók. Chapter 44
1 Jósef bauð ráðsmanni sínum og mælti: 'Fyll þú sekki mannanna vistum, svo mikið sem þeir geta með sér flutt, og láttu silfurpeninga hvers eins ofan á í sekk hans.
2 Og bikar minn, silfurbikarinn, skalt þú láta ofan á í sekk hins yngsta og silfurpeningana fyrir korn hans.' Og hann gjörði eins og Jósef bauð honum.
3 Er bjart var orðið næsta morgun, voru mennirnir látnir fara, þeir og asnar þeirra.
4 Og er þeir voru komnir út úr borginni, en skammt burt farnir, sagði Jósef við ráðsmann sinn: 'Bregð þú við og veit mönnunum eftirför, og þegar þú nær þeim, skalt þú segja við þá: ,Hví hafið þér launað gott með illu? Hví hafið þér stolið silfurbikar mínum?
5 Er það ekki sá, sem herra minn drekkur af og hann spáir í? Þar hafið þér illa gjört.'`
6 Og er hann náði þeim, talaði hann þessi orð til þeirra.
7 En þeir sögðu við hann: 'Hví talar herra minn þannig? Fjarri sé það þjónum þínum að gjöra slíkt.
8 Sjá, það silfur, sem vér fundum ofan á í sekkjum vorum, færðum vér þér aftur frá Kanaanlandi, og hvernig skyldum vér þá stela silfri eða gulli úr húsi herra þíns?
9 Hver sá af þjónum þínum, sem bikarinn finnst hjá, skal deyja, og þar að auki skulum vér hinir vera þrælar herra míns.'
10 Hann svaraði: 'Sé þá svo sem þér segið. Sá sem hann finnst hjá, veri þræll minn, en þér skuluð vera lausir.'
11 Þá flýttu þeir sér að taka ofan hver sinn sekk, og þeir opnuðu hver sinn sekk.
12 Og hann leitaði, byrjaði á hinum elsta og endaði á hinum yngsta, og fannst þá bikarinn í sekk Benjamíns.
13 Þá rifu þeir klæði sín, létu hver upp á sinn asna og fóru aftur til borgarinnar.
14 Júda og bræður hans gengu inn í hús Jósefs, en hann var þar enn þá, og þeir féllu fram fyrir honum til jarðar.
15 Þá sagði Jósef við þá: 'Hvílík óhæfa er þetta, sem þér hafið framið? Vissuð þér ekki, að annar eins maður og ég kann að spá?'
16 Og Júda mælti: 'Hvað skulum vér segja við herra minn, hvað skulum vér tala og hvernig skulum vér réttlæta oss? Guð hefir fundið misgjörð þjóna þinna. Sjá, vér erum þrælar herra míns, bæði vér og sá, sem bikarinn fannst hjá.'
17 Og hann svaraði: 'Fjarri sé mér að gjöra slíkt. Sá maður, sem bikarinn fannst hjá, hann sé þræll minn, en farið þér í friði til föður yðar.'
18 Þá gekk Júda nær honum og mælti: 'Æ, herra minn, leyf þjóni þínum að tala nokkur orð í áheyrn herra míns, og reiði þín upptendrist ekki gegn þjóni þínum, því að þú ert sem Faraó.
19 Herra minn spurði þjóna sína og mælti: ,Eigið þér föður eða bróður?`
20 Og vér sögðum við herra minn: ,Vér eigum aldraðan föður og ungan bróður, sem hann gat í elli sinni. Og bróðir hans er dáinn, og hann er einn á lífi eftir móður sína, og faðir hans elskar hann.`
21 Og þú sagðir við þjóna þína: ,Komið með hann hingað til mín, að ég fái litið hann með augum mínum.`
22 Og vér sögðum við herra minn: ,Sveinninn má ekki yfirgefa föður sinn, því að yfirgæfi hann föður sinn, mundi það draga hann til dauða.`
23 Þá sagðir þú við þjóna þína: ,Ef yngsti bróðir yðar kemur ekki hingað með yður, þá skuluð þér ekki framar fá að sjá auglit mitt.`
24 Og þegar vér komum heim til þjóns þíns, föður míns, þá sögðum vér honum ummæli herra míns.
25 Og faðir vor sagði: ,Farið aftur og kaupið oss lítið eitt af vistum.`
26 Þá svöruðum vér: ,Vér getum ekki farið þangað. Megi yngsti bróðir vor fara með oss, þá skulum vér fara þangað, því að vér fáum ekki að sjá auglit mannsins, ef yngsti bróðir vor er ekki með oss.`
27 Og þjónn þinn, faðir minn, sagði við oss: ,Þér vitið, að kona mín ól mér tvo sonu.
28 Annar þeirra fór að heiman frá mér, og ég sagði: Vissulega er hann sundur rifinn.
29 Og ef þér takið nú þennan líka burt frá mér og verði hann fyrir slysi, þá munuð þér leiða hærur mínar með hörmung til heljar.`
30 Og komi ég nú til þjóns þíns, föður míns, og sé sveinninn ekki með oss,
31 þá mun svo fara, að sjái hann, að sveinninn er eigi með oss, þá deyr hann, og þjónar þínir munu leiða hærur þjóns þíns, föður vors, með harmi til heljar.
32 Því að þjónn þinn tók ábyrgð á sveininum við föður minn og sagði: ,Ef ég kem ekki með hann aftur, skal ég vera sekur við föður minn alla ævi.`
33 Og lát þú því þjón þinn verða hér eftir sem þræl herra míns í stað sveinsins, en leyf sveininum að fara heim með bræðrum sínum.
34 Því að hvernig gæti ég farið heim til föður míns, sé sveinninn ekki með mér? Ég yrði þá að sjá þá hörmung, sem koma mundi yfir föður minn.'