1. Mósebók. Chapter 17
1 Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: 'Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar,
2 þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega.'
3 Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði:
4 'Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða.
5 Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig.
6 Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma.
7 Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig.
8 Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra.'
9 Guð sagði við Abraham: 'Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars.
10 Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera.
11 Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar.
12 Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg.
13 Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli.
14 En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið.'
15 Guð sagði við Abraham: 'Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara.
16 Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga.'
17 Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: 'Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?'
18 Og Abraham sagði við Guð: 'Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!'
19 Og Guð mælti: 'Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann.
20 Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.
21 En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári.'
22 Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum.
23 Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum.
24 Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
25 Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
26 Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans,
27 og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.