1. Mósebók. Chapter 39

1 Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt.
2 En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns.
3 Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur,
4 þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti.
5 Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan.
6 Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum. Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum.
7 Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: 'Leggstu með mér!'
8 En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: 'Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur.
9 Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?'
10 Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana.
11 Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni,
12 að hún greip í skikkju hans og mælti: 'Leggstu með mér!' En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út.
13 En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út,
14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: 'Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum.
15 Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út.'
16 Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim.
17 Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: 'Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig.
18 En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út.'
19 Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: 'Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig,' þá varð hann ákaflega reiður.
20 Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni.
21 Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar.
22 Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi.
23 Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.