1. Mósebók. Chapter 33

1 Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar.
2 Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast.
3 En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum.
4 Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu.
5 Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: 'Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?' Og hann svaraði: 'Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum.'
6 Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig.
7 Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig.
8 Esaú mælti: 'Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?' Jakob svaraði: 'Að ég megi finna náð í augum herra míns.'
9 Þá mælti Esaú: 'Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!'
10 En Jakob sagði: 'Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér.
11 Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir.' Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina.
12 Þá mælti Esaú: 'Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér.'
13 En hann svaraði honum: 'Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast.
14 Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír.'
15 Þá mælti Esaú: 'Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru.' Hann svaraði: 'Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns.'
16 Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír.
17 Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót.
18 Jakob kom heill á hófi til Síkemborgar, sem er í Kanaanlandi, er hann kom frá Mesópótamíu, og hann sló tjöldum fyrir utan borgina.
19 Hann keypti landspilduna, sem hann hafði tjaldað á, af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað silfurpeninga.
20 Og hann reisti þar altari og kallaði það El-elóhe-Ísrael.