1. Mósebók. Chapter 24
1 Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu.
2 Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti:
3 'Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal,
4 heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum.'
5 Þjónninn svaraði honum: 'En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?'
6 Og Abraham sagði við hann: 'Varastu að fara með son minn þangað!
7 Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,` hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu.
8 Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur.'
9 Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu.
10 Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors.
11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn.
12 Og hann mælti: 'Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham.
13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn.
14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,`
15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni.
16 En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni.
17 Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: 'Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni.'
18 Og hún svaraði: 'Drekk, herra minn!' Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka.
19 Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: 'Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína.'
20 Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans.
21 En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.
22 En er úlfaldar hans höfðu drukkið nægju sína, tók maðurinn nefhring úr gulli, sem vó hálfan sikil, og tvö armbönd og dró á hendur henni. Vógu þau tíu sikla gulls.
23 Því næst mælti hann: 'Hvers dóttir ert þú? Segðu mér það. Er rúm í húsi föður þíns til að hýsa oss í nótt?'
24 Og hún sagði við hann: 'Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor.'
25 Þá sagði hún við hann: 'Vér höfum yfrið nóg bæði af hálmi og fóðri, og einnig húsrúm til gistingar.'
26 Þá laut maðurinn höfði, bað til Drottins
27 og mælti: 'Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns.'
28 Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið.
29 Rebekka átti bróður, sem Laban hét, og Laban hljóp til mannsins út að lindinni.
30 Og er hann sá hringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrði orð Rebekku systur sinnar, sem sagði: 'Svona talaði maðurinn við mig,' þá fór hann til mannsins. Og sjá, hann stóð hjá úlföldunum við lindina.
31 Og hann sagði: 'Kom þú inn, blessaður af Drottni. Hví stendur þú hér úti? Ég hefi rýmt til í húsinu, og staður er fyrir úlfalda þína.'
32 Þá gekk maðurinn inn í húsið, og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður, en færði honum vatn til að þvo fætur sína og fætur þeirra manna, sem voru með honum.
33 Og matur var fram borinn fyrir hann, en hann sagði: 'Eigi vil ég matar neyta fyrr en ég hefi borið upp erindi mitt.' Og menn svöruðu: 'Tala þú!'
34 Hann mælti: 'Ég er þjónn Abrahams.
35 Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna.
36 Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á.
37 Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá,
38 heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.`
39 Og ég sagði við húsbónda minn: ,Vera má, að konan vilji ekki fara með mér.`
40 Og hann svaraði mér: ,Drottinn, fyrir hvers augsýn ég hefi gengið, mun senda engil sinn með þér og láta ferð þína heppnast, svo að þú megir fá konu til handa syni mínum af ætt minni og úr húsi föður míns.
41 Þá skaltu vera laus við þann eið, sem þú vinnur mér, ef þú fer til ættingja minna, og vilji þeir ekki gefa þér hana, þá ertu laus við eiðinn, sem ég tek af þér.`
42 Og er ég í dag kom að lindinni, sagði ég: ,Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns. Ætlir þú að láta þá för lánast, sem ég nú er að fara,
43 þá sjá, ég stend við þessa lind, og fari svo, að sú stúlka, sem kemur hingað til að sækja vatn og ég segi við: Gef mér að drekka vatnssopa úr skjólu þinni,
44 svarar mér: Drekk þú, og líka skal ég ausa úlföldum þínum vatn,
45 En áður en ég hafði lokið þessu tali við sjálfan mig, sjá, þá kom Rebekka út þangað með skjólu sína á öxlinni og gekk niður að lindinni og bar upp vatn. Og ég sagði við hana: ,Gef mér að drekka!`
46 Og óðara tók hún skjóluna niður af öxlinni og sagði: ,Drekk þú, og líka skal ég brynna úlföldum þínum.` Og ég drakk, og hún brynnti líka úlföldunum.
47 Þá spurði ég hana og mælti: ,Hvers dóttir ert þú?` Og hún sagði: ,Dóttir Betúels, sonar Nahors, sem Milka ól honum.` Lét ég þá hringinn í nef hennar og armböndin á hendur hennar.
48 Og ég laut höfði og bað til Drottins, og ég lofaði Drottin, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hafði leitt mig hinn rétta veg til að taka bróðurdóttur húsbónda míns syni hans til handa.
49 Og nú, ef þér viljið sýna vináttu og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri.'
50 Þá svöruðu þeir Laban og Betúel og sögðu: 'Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert við þig sagt, hvorki illt né gott.
51 Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og Drottinn hefir sagt.'
52 Og er þjónn Abrahams heyrði þessi orð, laut hann til jarðar fyrir Drottni.
53 Og þjónninn tók upp skartgripi af silfri og skartgripi af gulli og klæði, og gaf Rebekku, en bróður hennar og móður gaf hann gersemar.
54 Því næst átu þeir og drukku, hann og mennirnir, sem með honum voru, og gistu þar um nóttina. Er þeir voru risnir úr rekkju um morguninn, mælti hann: 'Látið mig nú fara heim til húsbónda míns.'
55 Þá svöruðu bróðir hennar og móðir: 'Leyf þú stúlkunni að vera hjá oss enn nokkurn tíma eða eina tíu daga. Þá má hún fara.'
56 En hann svaraði þeim: 'Tefjið mig ekki! Drottinn hefir látið ferð mína heppnast. Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns.'
57 Þau sögðu þá: 'Við skulum kalla á stúlkuna og spyrja hana sjálfa.'
58 Þá kölluðu þau á Rebekku og sögðu við hana: 'Vilt þú fara með þessum manni?' Og hún sagði: 'Ég vil fara.'
59 Þá létu þau Rebekku systur sína og fóstru hennar fara með þjóni Abrahams og mönnum hans.
60 Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: 'Systir vor, vaxi af þér þúsundir þúsunda og eignist niðjar þínir borgarhlið fjandmanna sinna!'
61 Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn tók Rebekku og fór leiðar sinnar.
62 Ísak hafði gengið að Beer-lahaj-róí, því að hann bjó í Suðurlandinu.
63 Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma.
64 Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum.
65 Og hún sagði við þjóninn: 'Hver er þessi maður, sem kemur á móti oss þarna á mörkinni?' Og þjónninn svaraði: 'Það er húsbóndi minn.' Þá tók hún skýluna og huldi sig.
66 Og þjónninn sagði Ísak frá öllu því, sem hann hafði gjört.
67 Og Ísak leiddi hana í tjald Söru móður sinnar, og tók Rebekku og hún varð kona hans og hann elskaði hana. Og Ísak huggaðist af harmi þeim, er hann bar eftir móður sína.