Bréfið til Hebrea. Chapter 6

1 Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.
2 Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm.
3 Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar.
4 Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda
5 og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar,
6 en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.
7 Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hana, fær blessun frá Guði.
8 En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd.
9 En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um að yður er betur farið og þér nær hjálpræðinu, þó að vér mælum svo.
10 Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.
11 Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.
12 Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.
13 Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá 'sór hann við sjálfan sig,' þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði:
14 'Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt.'
15 Og Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.
16 Menn sverja eið við þann, sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli.
17 Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitsins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði.
18 Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum.
19 Hún er eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið,
20 þangað sem Jesús gekk inn, fyrirrennari vor vegna, þegar hann varð æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.