Jesaja. Chapter 55

1 Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!
2 Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings? Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti!
3 Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við! Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.
4 Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.
5 Sjá, þú munt kalla til þín þjóð, er þú þekkir ekki, og fólk, sem ekki þekkir þig, mun hraða sér til þín, sakir Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlegan.
6 Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!
7 Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.
8 Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir
9 Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.
10 Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta,
11 eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.
12 Já, með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða. Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður, og öll tré merkurinnar klappa lof í lófa.
13 Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa. Þetta mun verða Drottni til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.