Jesaja. Chapter 57

1 Hinir réttlátu líða undir lok, og enginn leggur það á hjarta. Hinum guðhræddu er burt svipt, og enginn veitir því athygli. Hinir réttlátu verða burt numdir frá ógæfunni,
2 þeir ganga inn til friðar. Þeir, sem ganga beina braut, munu hvíla í legurúmum sínum.
3 Komið þér hingað, þér seiðkonusynir, þú afsprengi hórkarls og skækju!
4 Að hverjum skopist þér? Framan í hvern eruð þér að bretta yður og reka út úr yður tunguna? Eruð þér ekki syndarinnar börn og lyginnar afsprengi?
5 Þér brunnuð af girndarbruna hjá eikitrjánum, undir hverju grænu tré, þér slátruðuð börnum í dölunum, niðri í klettagjánum.
6 Á sleipum steinum í árfarvegi skriðnar þér fótur. Þú úthelltir drykkjarfórn handa þeim, færðir þeim matfórn. Átti ég að una slíku?
7 Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir.
8 Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt. Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra.
9 Þú fórst til konungsins með olíu og hafðir með þér mikil smyrsl, og þú sendir sendiboða þína langar leiðir og steigst niður allt til Heljar.
10 Þú varðst þreytt af hinu langa ferðalagi þínu, en þó sagðir þú ekki: 'Ég gefst upp!' Þú fannst nýjan lífsþrótt í hendi þinni, fyrir því örmagnaðist þú ekki.
11 Hvern hræddist og óttaðist þú þá, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum, að þú skyldir ekki muna til mín, ekkert um mig hirða? Er eigi svo: Ég hefi þagað, og það frá eilífð, mig óttaðist þú því ekki?
12 En ég skal gjöra réttlæti þitt kunnugt, og verkin þín
13 Lát skurðgoðin, sem þú hefir saman safnað, bjarga þér, er þú kallar á hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burt, gusturinn taka þau. En sá, sem leitar hælis hjá mér, mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall.
14 Sagt mun verða: 'Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!'
15 Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.
16 Því að ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað.
17 Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti.
18 Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun. Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum,
19 vil ég gefa ávöxt varanna
20 En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju.
21 Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.