Jesaja. Chapter 42

1 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.
2 Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.
3 Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.
4 Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.
5 Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:
6 Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar
7 til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.
8 Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.
9 Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.
10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!
11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum!
12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!
13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:
14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.
15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.
16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.
17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: 'Þér eruð guðir vorir.'
18 Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!
19 Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins?
20 Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki.
21 Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega.
22 Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: 'Skilið þeim aftur!'
23 Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis?
24 Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki.
25 Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.