Jesaja. Chapter 39
1 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.
2 Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og allt vopnabúr sitt og allt, sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.
3 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: 'Hvert var erindi þessara manna, og hvaðan eru þeir til þín komnir?' Hiskía svaraði: 'Af fjarlægu landi eru þeir til mín komnir, frá Babýlon.'
4 Þá sagði hann: 'Hvað sáu þeir í höll þinni?' Hiskía svaraði: 'Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim.'
5 Þá sagði Jesaja við Hiskía: 'Heyr þú orð Drottins allsherjar.
6 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða
7 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon.'
8 En Hiskía sagði við Jesaja: 'Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað.' Því að hann hugsaði: 'Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi.'