Jesaja. Chapter 27
1 Á þeim degi mun Drottinn með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.
2 Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð:
3 Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.
4 Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku
5 nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.
6 Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.
7 Hefir Drottinn lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir?
8 Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði.
9 Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar.
10 Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti.
11 Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur.
12 Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn!
13 Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.