Jeremía. Chapter 14
1 Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum.
2 Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp.
3 Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín.
4 Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín.
5 Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn,
6 og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras.
7 Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað.
8 Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur?
9 Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi!
10 Svo segir Drottinn um þennan lýð: Þannig var þeim ljúft að reika um, þeir öftruðu ekki fótum sínum, en Drottinn hafði enga þóknun á þeim. Nú minnist hann misgjörðar þeirra og vitjar synda þeirra.
11 Og Drottinn sagði við mig: 'Þú skalt eigi biðja þessum lýð góðs.
12 Þegar þeir fasta, þá hlýði ég eigi á grátbeiðni þeirra, og þegar þeir bera fram brennifórn og matfórn, þá hefi ég eigi þóknun á þeim, heldur vil ég gjöreyða þeim með sverði, hungri og drepsótt.'
13 Þá sagði ég: 'Æ, herra Drottinn, sjá, spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð, og hungri munuð þér ekki verða fyrir, heldur mun ég láta yður hljóta stöðuga heill á þessum stað!'
14 En Drottinn sagði við mig: 'Spámennirnir boða lygar í mínu nafni. Ég hefi ekki sent þá og ég hefi ekki skipað þeim og ég hefi ekki við þá talað, þeir boða yður lognar sýnir, fánýtar spár og tál, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp.
15 Fyrir því segir Drottinn svo: Spámennirnir, sem spá í mínu nafni og segja, þótt ég hafi ekki sent þá: Hvorki mun sverð né hungur ganga yfir þetta land!
16 En lýðurinn, sem þeir boða spár sínar, skal liggja dauður á Jerúsalem-strætum af hungri og fyrir sverði, og enginn jarða þá,
17 Þú skalt tala til þeirra þessi orð: Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári.
18 Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það.
19 Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir? Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!
20 Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér.
21 Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns,
22 Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.