Jeremía. Chapter 35
1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á dögum Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:
2 'Gakk til ættflokks Rekabíta og tala við þá og kom með þá í musteri Drottins, inn í eitt herbergið, og gef þeim vín að drekka.'
3 Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, og bræður hans og alla sonu hans og allan Rekabíta-ættflokkinn
4 og fór með þá í musteri Drottins, inn í herbergi sona Hanans, Jigdaljasonar, guðsmannsins, sem er við hliðina á herbergi höfðingjanna, uppi yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar.
5 Og ég setti skálar fullar af víni og bikara fyrir ættmenn Rekabíta-flokksins og sagði við þá: 'Drekkið vín!'
6 Þá sögðu þeir: 'Vér drekkum ekki vín, því að Jónadab Rekabsson ættfaðir vor hefir lagt svo fyrir oss: ,Þér skuluð aldrei drekka vín að eilífu, hvorki þér né synir yðar,
7 og þér skuluð ekki reisa hús, né sá sæði, né planta víngarða, né eiga nokkuð slíkt, heldur skuluð þér búa í tjöldum alla ævi yðar, til þess að þér lifið langa ævi í því landi, þar er þér dveljið sem útlendingar.`
8 Og vér höfum hlýtt skipun Jónadabs Rekabssonar ættföður vors í öllu því, er hann bauð oss, svo að vér drekkum alls ekki vín alla ævi vora, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir vorir né dætur vorar,
9 og reisum oss ekki hús til að búa í og eigum hvorki víngarða, akra né sáð.
10 Vér höfum því búið í tjöldum og hlýtt og farið eftir öllu því, er Jónadab ættfaðir vor bauð oss.
11 En er Nebúkadresar Babelkonungur braust inn í landið, sögðum vér: ,Komið, vér skulum halda inn í Jerúsalem undan her Kaldea og undan her Sýrlendinga!` og settumst að í Jerúsalem.'
12 Þá kom orð Drottins til Jeremía:
13 'Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Far og seg við Júdamenn og Jerúsalembúa: Viljið þér ekki taka umvöndun, svo að þér hlýðið á orð mín?
14 Orð Jónadabs Rekabssonar eru haldin, þau er hann lagði fyrir sonu sína, að drekka ekki vín. Þeir hafa ekki vín drukkið allt fram á þennan dag, af því að þeir hafa hlýtt skipun ættföður síns. En ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki hlýtt mér.
15 Og ég hefi sent til yðar alla þjóna mína, spámennina, seint og snemma, til þess að segja: 'Snúið yður, hver frá sínum vonda vegi, og bætið gjörðir yðar og eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem ég gaf yður og feðrum yðar!'
16 Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið skipun ættföður síns, þá er hann fyrir þá lagði, en þessi lýður hefir ekki hlýtt mér.
17 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, nú leiði ég yfir Júda og alla Jerúsalembúa alla ógæfuna, er ég hefi hótað þeim, af því að þeir hafa ekki hlýtt, þótt ég hafi talað til þeirra, né svarað, þótt ég hafi kallað til þeirra.
18 En við ættflokk Rekabíta sagði Jeremía: 'Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Af því að þér hafið hlýtt skipun Jónadabs ættföður yðar og haldið allar skipanir hans og farið í öllu eftir því, er hann fyrir yður lagði,
19 fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Jónadab Rekabsson skal aldrei vanta mann, er standi frammi fyrir mér.'