Jeremía. Chapter 37
1 Sedekía Jósíason varð konungur í stað Konja Jójakímssonar, er Nebúkadresar Babelkonungur hafði gjört að konungi í Júda.
2 En hvorki hann, né þjónar hans, né landslýðurinn hlýddi orðum Drottins, þeim er hann talaði fyrir munn Jeremía spámanns.
3 Og Sedekía konungur sendi Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með svolátandi orðsending: 'Bið þú fyrir oss til Drottins, Guðs vors!'
4 En Jeremía gekk þá út og inn meðal lýðsins og þeir höfðu enn ekki sett hann í dýflissuna.
5 Her Faraós var og lagður af stað frá Egyptalandi, og er Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, spurðu það, héldu þeir burt frá Jerúsalem.
6 Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns:
7 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við Júdakonung, sem sendi yður til mín, til þess að spyrja mig: Her Faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til síns lands, til Egyptalands,
8 og Kaldear munu og aftur snúa og herja á þessa borg, vinna hana og brenna hana í eldi.
9 Svo segir Drottinn: Svíkið ekki sjálfa yður með því að segja: 'Kaldear munu vissulega fara burt frá oss!' því að þeir fara ekki burt.
10 Því að þótt þér fellduð allan her Kaldea, er á yður herjar, og ekki væru aðrir orðnir eftir af þeim en sverði lagðir menn, þá mundu þeir rísa upp, hver og einn í sínu tjaldi, og brenna þessa borg í eldi!
11 En er her Kaldea fór burt frá Jerúsalem undan her Faraós,
12 þá fór Jeremía frá Jerúsalem og hélt til Benjamínslands, til þess að taka þar á móti erfðahlut, mitt á meðal lýðsins.
13 En er hann kom í Benjamínshlið, þá var þar fyrir varðmaður, að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: 'Þú ætlar að hlaupast burt til Kaldea!'
14 En Jeremía sagði: 'Það er lygi! Ég ætla ekki að hlaupast burt til Kaldea!' En Jería hlustaði ekki á Jeremía og tók hann höndum og fór með hann til höfðingjanna.
15 Og höfðingjarnir reiddust Jeremía og börðu hann og settu hann í fangelsi í húsi Jónatans kanslara, því að það höfðu þeir gjört að dýflissu.
16 Þannig komst Jeremía í prísundina og í hvelfinguna, og þar sat Jeremía alllangan tíma.
17 En Sedekía konungur sendi og lét sækja hann, og konungur spurði hann á laun í höll sinni og mælti: 'Hefir nokkurt orð komið frá Drottni?' 'Svo er víst!' mælti Jeremía. 'Þú munt seldur verða á vald Babelkonungs!'
18 Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: 'Hvað hefi ég brotið gegn þér og gegn þjónum þínum og gegn þessum lýð, að þér hafið sett mig í dýflissu?
19 Og hvar eru nú spámenn yðar, þeir er spáðu yður og sögðu: ,Eigi mun Babelkonungur fara í móti yður og í móti þessu landi`?
20 Og heyr nú, minn herra konungur! Virst að heyra auðmjúka bæn mína! Lát eigi flytja mig aftur í hús Jónatans kanslara, svo að ég deyi þar ekki!'
21 Síðan var Jeremía settur í varðhald í varðgarðinum að boði Sedekía konungs og honum gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni. Og þannig sat Jeremía í varðgarðinum.