Jobsbók. Chapter 41
1 Getur þú veitt krókódílinn á öngul, getur þú heft tungu hans með snæri?
2 Dregur þú seftaug gegnum nasir hans og rekur þú krók gegnum kjálka honum?
3 Ætli hann beri fram fyrir þig margar auðmjúkar bænir eða mæli til þín blíðum orðum?
4 Mun hann gjöra við þig sáttmála, svo að þú takir hann að ævinlegum þræli?
5 Munt þú leika þér að honum eins og litlum fugli og getur þú bundið hann fastan fyrir smámeyjar þínar?
6 Manga fiskveiðafélagar um hann, skipta þeir honum meðal kaupmanna?
7 Getur þú fyllt húð hans broddum og haus hans skutlum?
8 Legg hönd þína á hann
9 Já, von mannsins bregst, hann fellur þegar flatur fyrir sjóninni einni saman.
10 Enginn er svo fífldjarfur, að hann þori að egna hann,
11 Hver hefir að fyrra bragði gefið mér, svo að ég ætti að endurgjalda? Allt sem undir himninum er, það er mitt!
12 Ég vil ekki þegja um limu hans, né um styrkleik og fegurð vaxtar hans.
13 Hver hefir flett upp skjaldkápu hans að framan, hver fer inn undir tvöfaldan tanngarð hans?
14 Hver hefir opnað hliðin að gini hans? Ógn er kringum tennur hans.
15 Tignarprýði eru skjaldaraðirnar, lokaðar með traustu innsigli.
16 Hver skjöldurinn liggur fast að öðrum, ekkert loft kemst á milli þeirra.
17 Þeir eru fastir hver við annan, eru svo samfelldir, að þeir verða eigi skildir sundur.
18 Þegar hann hnerrar, standa ljósgeislar úr nösum hans, og augu hans eru sem brágeislar morgunroðans.
19 Úr gini hans standa blys, eldneistar ganga fram úr honum.
20 Úr nösum hans stendur eimur, eins og upp úr sjóðandi potti, sem kynt er undir með sefgrasi.
21 Andi hans kveikir í kolum, og logi stendur úr gini hans.
22 Kraftur situr á hálsi hans, og angist stökkur á undan honum.
23 Vöðvar holds hans loða fastir við, eru steyptir á hann og hreyfast ekki.
24 Hjarta hans er hart sem steinn, já, hart sem neðri kvarnarsteinn.
25 Þegar hann stökkur upp, skelfast kapparnir, þeir verða ringlaðir af hræðslu.
26 Ráðist einhver að honum með sverði, þá vinnur það eigi á, eigi heldur lensa, skotspjót eða ör.
27 Hann metur járnið sem strá, eirinn sem maðksmoginn við.
28 Eigi rekur örin hann á flótta, slöngusteinarnir verða hálmur fyrir honum.
29 Kylfur metur hann sem hálmstrá, og að hvin spjótsins hlær hann.
30 Neðan á honum eru oddhvöss brot, hann markar för í aurinn sem för eftir þreskisleða.
31 Hann lætur vella í djúpinu sem í potti, gjörir hafið eins og smyrslaketil.
32 Aftur undan honum er ljósrák, ætla mætti, að sjórinn væri silfurhærur.
33 Enginn er hans maki á jörðu, hans sem skapaður er til þess að kunna ekki að hræðast.
34 Hann lítur niður á allt hátt, hann er konungur yfir öllum drembnum dýrum.