Jósúabók. Chapter 7
1 En Ísraelsmenn fóru sviksamlega með hið bannfærða. Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl, tók af hinu bannfærða. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísraelsmönnum.
2 Nú sendi Jósúa menn frá Jeríkó til Aí, sem er hjá Betaven, fyrir austan Betel, og sagði við þá: 'Farið og kannið landið.' Og mennirnir fóru og könnuðu Aí.
3 Þeir sneru aftur til Jósúa og sögðu við hann: 'Lát ekki allan lýðinn fara upp þangað. Hér um bil tvær eða þrjár þúsundir manna geta farið og unnið Aí. Ómaka eigi allan lýðinn þangað, því að þeir eru fáliðaðir fyrir.'
4 Þá fóru þangað hér um bil þrjár þúsundir manns af lýðnum, en þeir flýðu fyrir Aí-mönnum.
5 Og Aí-menn felldu hér um bil þrjátíu og sex menn af þeim og eltu þá frá borgarhliðinu alla leið að grjótnámunum og unnu sigur á þeim í hlíðinni. Þá æðraðist lýðurinn og varð að gjalti.
6 Jósúa reif klæði sín og féll fram á ásjónu sína til jarðar fyrir örk Drottins og lá þar allt til kvelds, hann og öldungar Ísraels, og jusu mold yfir höfuð sér.
7 Og Jósúa sagði: 'Æ, Drottinn Guð, hví leiddir þú lýð þennan yfir Jórdan, ef þú selur oss nú í hendur Amorítum, til þess að þeir gjöri út af við oss? Ó að vér hefðum látið oss það lynda að vera kyrrir hinumegin Jórdanar!
8 Æ, Drottinn, hvað á ég að segja, nú þegar Ísrael hefir orðið að flýja fyrir óvinum sínum?
9 Og þegar Kanaanítar og aðrir landsbúar spyrja þetta, munu þeir umkringja oss og afmá nafn vort af jörðinni. Hvað ætlar þú þá að gjöra til að halda uppi þínu mikla nafni?'
10 Drottinn sagði við Jósúa: 'Rís þú upp! Hví liggur þú hér fram á ásjónu þína?
11 Ísrael hefir syndgað, þeir hafa rofið sáttmála minn, þann er ég bauð þeim að halda. Þeir hafa tekið af hinu bannfærða, þeir hafa stolið, þeir hafa leynt því og lagt það hjá sínum munum.
12 Fyrir því fá Ísraelsmenn eigi staðist fyrir óvinum sínum, heldur leggja þeir á flótta fyrir þeim, því að þeir eru í banni. Ég vil eigi vera með yður eftir þetta, ef þér eyðið eigi hinu bannfærða, sem meðal yðar er.
13 Rís þú upp, helga þú lýðinn og seg: ,Helgið yður til morgundagsins,` því að svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Bannfærðir hlutir eru hjá þér, Ísrael! Þú munt eigi fá staðist fyrir óvinum þínum, uns þér hafið komið hinum bannfærðu hlutum burt frá yður.`
14 Á morgun snemma skuluð þér leiddir verða fram eftir ættkvíslum yðar, og sú ættkvísl, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir kynþáttum, og sá kynþáttur, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir ættum, og af þeirri ætt, sem Drottinn lætur hlut falla á, skulu karlmennirnir ganga fram, hver út af fyrir sig.
15 En þann skal brenna í eldi, sem hið bannfærða finnst hjá, svo og allt, sem hann á, því að hann hefir rofið sáttmála Drottins og framið óhæfuverk í Ísrael.'
16 Jósúa reis árla morguninn eftir og leiddi Ísrael fram, hverja ættkvísl út af fyrir sig. Kom þá upp hlutur Júda ættkvíslar.
17 Þá leiddi hann fram kynþáttu Júda, og kom upp hlutur Seraks kynþáttar. Því næst leiddi hann fram kynþátt Seraks, hverja ætt út af fyrir sig, og kom upp hlutur Sabdí ættar.
18 Síðan leiddi hann fram ætt hans, hvern karlmann út af fyrir sig, og kom þá upp hlutur Akans Karmísonar, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl.
19 Þá sagði Jósúa við Akan: 'Sonur minn, gef þú Drottni, Ísraels Guði, dýrðina og gjör játningu fyrir honum. Seg mér, hvað þú hefir gjört, leyn mig engu.'
20 Akan svaraði Jósúa og sagði: 'Sannlega hefi ég syndgað gegn Drottni, Ísraels Guði. Svo og svo hefi ég gjört.
21 Ég sá meðal herfangsins fagra skikkju sínearska, tvö hundruð sikla silfurs, og gullstöng eina, er vó fimmtíu sikla. Ég ágirntist þetta og tók það. Og sjá, það er fólgið í jörðu í tjaldi mínu og silfrið undir.'
22 Jósúa sendi þá sendimenn þangað. Þeir runnu til tjaldsins, og sjá, það var fólgið í tjaldi hans, og silfrið undir.
23 Og þeir tóku það úr tjaldinu og færðu það Jósúa og öllum Ísraelsmönnum og lögðu það niður frammi fyrir Drottni.
24 Þá tók Jósúa Akan Seraksson, silfrið, skikkjuna, gullstöngina, sonu hans og dætur, uxa hans, asna og sauðfé, svo og tjald hans og allt, sem hann átti, í viðurvist alls Ísraels, og fór með það upp í Akordal.
25 Þá sagði Jósúa: 'Hví hefir þú stofnað oss í ógæfu? Drottinn stofni þér í ógæfu í dag!' Og allur Ísrael lamdi hann grjóti, og þeir brenndu þá í eldi og grýttu þá.
26 Gjörðu þeir steindys mikla yfir hann, og er hún þar enn í dag. Og Drottinn lét af hinni brennandi reiði sinni. Fyrir því heitir þessi staður Akordalur allt fram á þennan dag.