Jósúabók. Chapter 23
1 Löngum tíma eftir þetta, þá er Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir öllum óvinum þeirra hringinn í kring, og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri,
2 þá kallaði Jósúa saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn og sagði við þá: 'Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn.
3 Þér hafið sjálfir séð allt það, sem Drottinn Guð yðar, hefir gjört öllum þessum þjóðum yðar vegna, því að Drottinn Guð yðar hefir sjálfur barist fyrir yður.
4 Sjáið, með hlutkesti hefi ég úthlutað yður til handa löndum þessara þjóða, sem enn eru eftir, ættkvíslum yðar til eignar, og löndum þjóðanna, sem ég hefi eytt, allt frá Jórdan til hafsins mikla gegnt sólar setri.
5 Og Drottinn Guð yðar mun sjálfur reka þá burt frá yður og stökkva þeim undan yður, og þér munuð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn Guð yðar hefir heitið yður.
6 Reynist nú mjög staðfastir í því að halda og gjöra allt það, sem ritað er í lögmálsbók Móse, án þess að víkja frá því til hægri né vinstri,
7 svo að þér blandist eigi við þessar þjóðir, sem enn eru eftir hjá yður. Nefnið eigi guði þeirra á nafn, sverjið eigi við þá, þjónið þeim eigi og fallið eigi fram fyrir þeim,
8 heldur haldið yður fast við Drottin Guð yðar, eins og þér hafið gjört fram á þennan dag.
9 Fyrir því stökkti Drottinn undan yður miklum og voldugum þjóðum, og enginn hefir getað staðist fyrir yður fram á þennan dag.
10 Einn yðar elti þúsund, því að Drottinn Guð yðar barðist sjálfur fyrir yður, eins og hann hefir heitið yður.
11 Gætið þess því vandlega
12 Því ef þér gjörist fráhverfir og samlagið yður leifum þjóða þessara, sem enn eru eftir hjá yður, mægist við þær og blandist við þær, og þær við yður,
13 þá vitið fyrir víst, að Drottinn Guð yðar mun eigi halda áfram að stökkva þessum þjóðum burt undan yður, heldur munu þær verða yður snara og fótakefli, svipa á síður yðar og þyrnar í augum yðar, uns þér eruð afmáðir úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.
14 Sjá, ég geng nú veg allrar veraldar, en þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.
15 En eins og öll þau fyrirheit, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður, hafa rætst á yður, eins mun Drottinn láta allar hótanir sínar rætast á yður, uns hann hefir gjöreytt yður úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.
16 Ef þér rjúfið sáttmála Drottins Guðs yðar, þann er hann fyrir yður lagði, og farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, þá mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og þér munuð fljótt hverfa úr landinu góða, sem hann hefir gefið yður.'