3. Mósebók. Chapter 23
1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 'Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur
3 Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur Drottins í öllum bústöðum yðar.
4 Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma.
5 Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins.
6 Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð.
7 Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
8 Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu.'
9 Drottinn talaði við Móse og sagði:
10 'Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar.
11 Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir Drottni, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.
12 Þann dag, er þér veifið bundininu, skuluð þér fórna veturgamalli sauðkind gallalausri í brennifórn Drottni til handa.
13 Og matfórnin með henni skal vera tveir tíundupartar úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin, og dreypifórnin fjórðungur úr hín af víni.
14 Eigi skuluð þér eta brauð, bakað korn eða korn úr nýslegnum kornstöngum allt til þess dags, allt til þess er þér hafið fært fórnargjöf Guði yðar. Það skal vera yður ævarandi lögmál frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
15 Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera.
16 Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn.
17 Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi
18 Og ásamt brauðinu skuluð þér fram bera sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, eitt ungneyti og tvo hrúta. Þau skulu vera brennifórn Drottni til handa ásamt matfórn og dreypifórnum þeim, er til þeirra heyra, eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
19 Og þér skuluð fórna einum geithafri í syndafórn og tveim sauðkindum veturgömlum í heillafórn.
20 Og presturinn skal veifa þeim með frumgróðabrauðinu að veififórn frammi fyrir Drottni ásamt sauðkindunum tveimur. Skal það vera Drottni helgað handa prestinum.
21 Þennan sama dag skuluð þér láta boð út ganga, þér skuluð halda helga samkomu. Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu. Það er ævarandi lögmál fyrir yður í öllum bústöðum yðar frá kyni til kyns.
22 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.'
23 Drottinn talaði við Móse og sagði:
24 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu.
25 Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu, og þér skuluð færa Drottni eldfórn.'
26 Drottinn talaði við Móse og sagði:
27 'Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn.
28 Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar.
29 Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni.
30 Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans.
31 Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
32 Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar.'
33 Drottinn talaði við Móse og sagði:
34 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga.
35 Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
36 Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
37 Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi,
38 auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni.
39 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld.
40 Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga.
41 Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana.
42 Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum,
43 svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.'
44 Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.