Markúsarguðspjall. Chapter 5
1 Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena.
2 Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda.
3 Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum.
4 Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann.
5 Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti.
6 Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum
7 og æpti hárri röddu: 'Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!'
8 Því að Jesús hafði sagt við hann: 'Þú óhreini andi, far út af manninum.'
9 Jesús spurði hann þá: 'Hvað heitir þú?' Hinn svaraði: 'Hersing heiti ég, vér erum margir.'
10 Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu.
11 En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit.
12 Og þeir báðu hann: 'Send oss í svínin, lát oss fara í þau!'
13 Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar.
14 En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði,
15 komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir.
16 En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum.
17 Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.
18 Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum.
19 En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: 'Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur.'
20 Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir.
21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið.
22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum,
23 bað hann ákaft og sagði: 'Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi.'
24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann.
25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.
26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.
27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.
28 Hún hugsaði: 'Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.'
29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.
30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: 'Hver snart klæði mín?'
31 Lærisveinar hans sögðu við hann: 'Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?'
32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,
33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.
34 Jesús sagði við hana: 'Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.'
35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: 'Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?'
36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: 'Óttast ekki, trú þú aðeins.'
37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi.
38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan.
39 Hann gengur inn og segir við þá: 'Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur.'
40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var.
41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: 'Talíþa kúm!' Það þýðir: 'Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!'
42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun.
43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.