Matteusarguðspjall

1 Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.
2 Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.
3 Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,
4 Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,
5 Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,
6 og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,
7 Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,
8 Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,
9 Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,
10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.
11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.
12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,
13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,
14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,
15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,
16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.
17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.
18 Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.
19 Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey.
20 Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: 'Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda.
21 Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.'
22 Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins:
23 'Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel,' það þýðir: Guð með oss.
24 Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín.
25 Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.