Fyrri Konungabók. Chapter 18

1 Löngu síðar kom orð Drottins til Elía, á þriðja ári þurrksins, svolátandi: 'Far og lát Akab sjá þig. Ég ætla að gefa regn á jörð.'
2 Þá fór Elía, til þess að láta Akab sjá sig. Hallærið var mikið í Samaríu.
3 Kallaði Akab þá Óbadía dróttseta fyrir sig. En Óbadía óttaðist Drottin mjög.
4 Fyrir því tók Óbadía, þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni.
5 Akab sagði við Óbadía: 'Kom þú, við skulum fara um landið og leita uppi allar vatnslindir og alla læki. Vera má, að við finnum gras, svo að við getum haldið lífinu í hestum og múlum og þurfum ekki að fella nokkurn hluta af skepnunum.'
6 Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina, og Óbadía fór einn sér í hina áttina.
7 En er Óbadía var á leiðinni, sjá, þá mætti Elía honum. Og er hann þekkti hann, féll hann fram á ásjónu sína og mælti: 'Ert það þú, herra minn Elía?'
8 Hann svaraði honum: 'Er ég víst. Far og seg herra þínum: Elía er hér!'
9 En Óbadía mælti: 'Hvað hefi ég misgjört, er þú vilt selja þjón þinn í hendur Akab, svo að hann drepi mig?
10 Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, er engin sú þjóð til og ekkert það konungsríki, að herra minn hafi ekki sent þangað til þess að leita þín, og ef sagt var: ,Hann er hér ekki!` þá lét hann konungsríkið og þjóðina vinna eið að því, að enginn hefði hitt þig.
11 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!`
12 En færi ég nú frá þér, þá mundi andi Drottins hrífa þig, ég veit ekki hvert, og ef ég þá kæmi til þess að segja Akab frá þessu, og hann fyndi þig ekki, þá mundi hann drepa mig, og þó hefir þjónn þinn óttast Drottin í frá barnæsku.
13 Hefir ekki herra minn frétt, hvað ég gjörði, er Jesebel drap spámenn Drottins, að ég fal hundrað manns af spámönnum Drottins, sína fimmtíu manns í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni?
14 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!` til þess að hann drepi mig.'
15 En Elía svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna, mun ég láta Akab sjá mig þegar í dag.'
16 Þá fór Óbadía til móts við Akab og sagði honum frá þessu. Fór þá Akab til fundar við Elía.
17 En er Akab sá Elía, sagði Akab við hann: 'Ert þú þar, skaðvaldur Ísraels?'
18 Elía svaraði: 'Eigi hefi ég valdið Ísrael skaða, heldur þú og ætt þín, þar sem þér hafið virt boð Drottins að vettugi og þú elt Baalana.
19 En send þú nú og stefn til mín öllum Ísrael á Karmelfjalli, svo og þeim fjögur hundruð og fimmtíu Baalsspámönnum og þeim fjögur hundruð Aséruspámönnum, er eta við borð Jesebelar.'
20 Þá sendi Akab út á meðal allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls.
21 Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: 'Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.' En lýðurinn svaraði honum engu orði.
22 Þá mælti Elía til lýðsins: 'Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu.
23 Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að.
24 Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð.' Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: 'Þetta er vel mælt.'
25 Þá sagði Elía við spámenn Baals: 'Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að.'
26 Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: 'Baal, svara þú oss!' En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört.
27 En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: 'Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna.'
28 En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi.
29 En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.
30 Þá sagði Elía við allan lýðinn: 'Gangið hingað til mín!' Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið.
31 Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs
32 og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis.
33 Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn.
34 Því næst mælti hann: 'Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn.' Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: 'Gjörið það aftur.' Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: 'Gjörið það í þriðja sinn.' Og þeir gjörðu það í þriðja sinn.
35 Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni.
36 En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: 'Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði.
37 Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra.'
38 Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.
39 Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: 'Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!'
40 En Elía sagði við þá: 'Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!' Og þeir handtóku þá, og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og banaði þeim þar.
41 Síðan mælti Elía við Akab: 'Far þú upp eftir, et og drekk, því að ég heyri þyt af regni.'
42 Þá fór Akab upp eftir til þess að eta og drekka. En Elía fór efst upp á Karmel, beygði sig til jarðar og setti andlitið milli hnjánna.
43 Því næst sagði hann við svein sinn: 'Gakk þú upp og lít út til hafs.' Hann gekk upp, litaðist um og mælti: 'Það er ekkert að sjá.' Elía mælti: 'Far þú aftur.' Og sveinninn fór aftur og aftur, sjö sinnum.
44 En í sjöunda sinnið sagði hann: 'Nú stígur lítið ský, sem mannshönd, upp úr hafinu.' Þá sagði Elía: 'Far og seg Akab: ,Beit fyrir vagninn og far ofan, svo að regnið teppi þig ekki.'`
45 Eftir örskamma stund varð himinninn dimmur af skýjum og vindi, og það kom hellirigning. En Akab steig á vagn sinn og ók til Jesreel.
46 En hönd Drottins hreif Elía, og hann gyrti lendar sínar og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.