Fyrri Konungabók. Chapter 4
1 Salómon konungur var konungur yfir öllum Ísrael, og
2 þessir voru æðstu embættismenn hans: Asarja Sadóksson var prestur,
3 Elíhóref og Ahía Sísasynir voru kanslarar, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,
4 Benaja Jójadason var yfir hernum, Sadók og Abjatar voru prestar,
5 Asarja Natansson var yfir fógetunum, Sabúð Natansson var prestur og vinur konungs.
6 Ahísar var stallari, Adóníram Abdason var yfir kvaðarmönnum.
7 Salómon hafði tólf fógeta yfir öllum Ísrael. Skyldu þeir birgja konung og hirð hans að vistum sinn mánuðinn hver á ári hverju.
8 Og þetta eru nöfn þeirra: Ben Húr á Efraímfjöllum,
9 Ben Deker í Makas og í Saalbím og Bet Semes og Elon, allt að Bet Hanan.
10 Ben Heseð í Arúbbót, honum tilheyrði Sókó og allt Heferland,
11 Ben Abínadab hafði allt Dórhálendi, átti hann Tafat, dóttur Salómons fyrir konu.
12 Baana Ahílúðsson: Taanak og Megiddó og allt Bet Sean, sem liggur hjá Saretan fyrir neðan Jesreel, frá Bet Sean til Abel Mehóla, allt vestur fyrir Jokmeam,
13 Ben Geber í Ramót í Gíleað, honum tilheyrðu þorp Jaírs Manassesonar í Gíleað og landsspildan Argób í Basan, sextíu stórar borgir, með múrveggjum og slagbröndum af eiri,
14 Ahínadab Íddóson í Mahanaím,
15 Akímaas í Naftalí, hann hafði og gengið að eiga Basmat, dóttur Salómons.
16 Baana Húsaíson í Asser og Bealót,
17 Jósafat Parúason í Íssakar,
18 Símeí Elason í Benjamín,
19 Geber Úríson í Gíleaðlandi, landi Síhons Amorítakonungs og Ógs, konungs í Basan. Og einn fógeti var í Júda.
20 Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.
21 Salómon drottnaði yfir öllum konungaríkjum frá Efrat til Filistalands og til landamæra Egyptalands. Færðu þeir Salómon skatt og voru þegnskyldir honum alla ævi hans.
22 Og Salómon þurfti daglega til matar þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli,
23 tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla.
24 Því að hann réð yfir öllu landi fyrir vestan Efrat, frá Tífsa til Gasa, yfir öllum konungum fyrir vestan Efrat, og hafði frið á allar hliðar hringinn í kring,
25 svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.
26 Og Salómon hafði fjörutíu þúsund vagnhesta og tólf þúsund ríðandi menn.
27 Og fógetar þessir birgðu Salómon konung að vistum og alla þá, er komu að borði Salómons konungs, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta.
28 Og bygg og hey handa akhestunum og gæðingunum fluttu þeir þangað, er hann var, hver eftir því sem honum bar.
29 Og Guð veitti Salómon afar mikla speki og visku og djúpsæi andans, sem sandur er margur á sjávarströnd,
30 og speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja og öll speki Egyptalands.
31 Og hann var allra manna vitrastur, vitrari en Etan Esrahíti og Heman og Kalkól og Darda Mahólssynir, og hann var nafnfrægur með öllum þjóðum umhverfis.
32 Hann mælti þrjú þúsund orðskviðu, og ljóð hans voru eitt þúsund og fimm að tölu.
33 Og hann talaði um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanon til ísópsins, sem sprettur á múrveggnum. Og hann talaði um fénað og fugla, orma og fiska,
34 og menn komu af öllum þjóðum til þess að heyra speki Salómons, frá öllum konungum jarðarinnar, er heyrðu speki hans getið.