Orðskviðirnir. Chapter 14
1 Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.
2 Sá sem framgengur í hreinskilni sinni, óttast Drottin, en sá sem fer krókaleiðir, fyrirlítur hann.
3 Í munni afglapans er vöndur á hroka hans, en varir hinna vitru varðveita þá.
4 Þar sem engin naut eru, þar er jatan tóm, en fyrir kraft uxans fæst mikill ágóði.
5 Sannorður vottur lýgur ekki, en falsvottur fer með lygar.
6 Spottarinn leitar visku, en finnur ekki, en hyggnum manni er þekkingin auðfengin.
7 Gakk þú burt frá heimskum manni, og þú hefir ekki kynnst þekkingar-vörum.
8 Viska hins kæna er í því fólgin, að hann skilur veg sinn, en fíflska heimskingjanna er svik.
9 Afglaparnir gjöra gys að sektarfórnum, en meðal hreinskilinna er velþóknun.
10 Hjartað eitt þekkir kvöl sína, og jafnvel í gleði þess getur enginn annar blandað sér.
11 Hús óguðlegra mun eyðileggjast, en tjald hreinskilinna mun blómgast.
12 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.
13 Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til, og endir gleðinnar er tregi.
14 Rangsnúið hjarta mettast af vegum sínum svo og góður maður af verkum sínum.
15 Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.
16 Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus.
17 Uppstökkur maður fremur fíflsku, en hrekkvís maður verður hataður.
18 Einfeldningarnir erfa fíflsku, en vitrir menn krýnast þekkingu.
19 Hinir vondu verða að lúta hinum góðu, og hinir óguðlegu að standa við dyr réttlátra.
20 Fátæklingurinn verður hvimleiður jafnvel vini sínum, en ríkismanninn elska margir.
21 Sá sem fyrirlítur vin sinn, drýgir synd, en sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu.
22 Vissulega villast þeir, er ástunda illt, en ást og trúfesti ávinna þeir sér, er gott stunda.
23 Af öllu striti fæst ágóði, en munnfleiprið eitt leiðir aðeins til skorts.
24 Vitrum mönnum er auður þeirra kóróna, en fíflska heimskingjanna er og verður fíflska.
25 Sannorður vottur frelsar líf, en sá sem fer með lygar, er svikari.
26 Í ótta Drottins er öruggt traust, og synir slíks manns munu athvarf eiga.
27 Ótti Drottins er lífslind til þess að forðast snörur dauðans.
28 Fólksmergðin er prýði konungsins, en mannaskorturinn steypir höfðingjanum.
29 Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd, en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku.
30 Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum.
31 Sá sem kúgar snauðan mann, óvirðir þann er skóp hann, en sá heiðrar hann, er miskunnar sig yfir fátækan.
32 Hinn óguðlegi fellur á illsku sinni, en hinum réttláta er ráðvendnin athvarf.
33 Í hjarta hyggins manns heldur viskan kyrru fyrir, en á meðal heimskingja gerir hún vart við sig.
34 Réttlætið hefur upp lýðinn, en syndin er þjóðanna skömm.
35 Vitur þjónn hlýtur hylli konungsins, en sá hefir reiði hans, sem skammarlega breytir.