Orðskviðirnir. Chapter 19
1 Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en lævís lygari og heimskur að auki.
2 Kapp er best með forsjá, og sá sem hraðar sér, misstígur sig.
3 Flónska mannsins steypir fyrirtækjum hans, en hjarta hans illskast við Drottin.
4 Auður fjölgar vinum, en fátækur maður verður vinum horfinn.
5 Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, kemst ekki undan.
6 Margir reyna að koma sér í mjúkinn hjá tignarmanninum, og allir eru vinir þess, sem gjafir gefur.
7 Allir bræður hins snauða hata hann, hversu miklu fremur firrast þá vinir hans hann.
8 Sá sem aflar sér hygginda, elskar líf sitt, sá sem varðveitir skynsemi, mun gæfu hljóta.
9 Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, tortímist.
10 Sællífi hæfir eigi heimskum manni, hvað þá þræli að drottna yfir höfðingjum.
11 Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.
12 Konungsreiði er eins og ljónsöskur, en hylli hans sem dögg á grasi.
13 Heimskur sonur er föður sínum sönn óhamingja, og konuþras er sífelldur þakleki.
14 Hús og auður er arfur frá feðrunum, en skynsöm kona er gjöf frá Drottni.
15 Letin svæfir þungum svefni, og iðjulaus maður mun hungur þola.
16 Sá sem varðveitir boðorðið, varðveitir líf sitt, en sá deyr, sem ekki hefir gát á vegum sínum.
17 Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.
18 Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.
19 Sá sem illa reiðist, verður að greiða sekt, því að ætlir þú að bjarga, gjörir þú illt verra.
20 Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.
21 Mörg eru áformin í mannshjartanu, en ráðsályktun Drottins stendur.
22 Unun mannsins er kærleiksverk hans, og betri er fátækur maður en lygari.
23 Ótti Drottins leiðir til lífs, þá hvílist maðurinn mettur, verður ekki fyrir neinni ógæfu.
24 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en ekki nennir hann að bera hana aftur upp að munninum.
25 Sláir þú spottarann, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vandað um við skynsaman mann, lærir hann hyggindi.
26 Sá sem misþyrmir föður sínum og rekur burt móður sína, slíkur sonur fremur smán og svívirðing.
27 Hættu, son minn, að hlýða á umvöndun, ef það er til þess eins, að þú brjótir á móti skynsamlegum orðum.
28 Samviskulaus vottur gjörir gys að réttinum, og munnur óguðlegra gleypir rangindi.
29 Refsidómar eru búnir spotturunum og högg baki heimskingjanna.