Orðskviðirnir. Chapter 30
1 Orð Agúrs Jakesonar. Guðmælið. Maðurinn segir: Ég hefi streitst, ó Guð, ég hefi streitst, ó Guð, og er að þrotum kominn.
2 Því að ég er of heimskur til að geta talist maður, og ég hefi eigi mannsvit,
3 ég hefi eigi lært speki, svo að ég hafi þekking á Hinum heilaga.
4 Hver hefir stigið upp til himna og komið niður? Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans
5 Sérhvert orð Guðs er hreint, hann er skjöldur þeim, er leita hælis hjá honum.
6 Bæt engu við orð hans, til þess að hann ávíti þig eigi og þú standir sem lygari.
7 Um tvennt bið ég þig, synja mér þess eigi, áður en ég dey:
8 Lát fals og lygaorð vera fjarri mér, gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð.
9 Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: 'Hver er Drottinn?' eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.
10 Ræg eigi þjóninn við húsbónda hans, svo að hann biðji þér ekki óbæna og þú verðir að gjalda.
11 Til er það kyn, sem bölvar föður sínum og blessar ekki móður sína,
12 kyn, sem þykist vera hreint og hefir þó eigi þvegið af sér saurinn
13 kyn, sem lyftir hátt augunum og sperrir upp augnahárin,
14 kyn, sem hefir sverð að tönnum og hnífa að jöxlum til þess að uppeta hina voluðu úr landinu og hina fátæku burt frá mönnunum.
15 Blóðsugan á tvær dætur, sem heita Gefðu! Gefðu! Þrennt er til, sem er óseðjandi, fernt, sem aldrei segir: 'Það er nóg!'
16 Helja og móðurlíf óbyrjunnar, jörðin, sem aldrei seðst af vatni, og eldurinn, sem aldrei segir: 'Það er nóg!'
17 Það auga, sem gjörir gys að föður sínum og fyrirlítur hlýðni við móður sína, mega hrafnarnir við lækinn kroppa út og arnarungarnir eta.
18 Þrennt er, sem mér virðist undursamlegt, og fernt, sem ég skil eigi:
19 vegur arnarins um loftið, vegur höggormsins yfir klettinn, vegur skipsins um reginhaf og vegur manns hjá konu.
20 Þannig er atferli hórkonunnar: Hún neytir, þurrkar sér um munninn og segir: 'Ég hefi ekkert rangt gjört.'
21 Undan þrennu nötrar jörðin, og undir fernu getur hún ekki risið:
22 undir þræli, þegar hann verður konungur, og guðlausum manni, þegar hann mettast brauði,
23 undir smáðri konu, þegar hún giftist, og þernu, þegar hún bolar burt húsmóður sinni.
24 Fjórir eru smáir á jörðinni, og þó eru þeir vitrir spekingar:
25 Maurarnir eru kraftlítil þjóð, og þó afla þeir sér fæðunnar á sumrin.
26 Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð, og þó gjöra þeir sér híbýli í klettunum.
27 Engispretturnar hafa engan konung, og þó fer allur hópurinn út í röð og reglu.
28 Ferfætlunni getur þú náð með tómum höndunum, og þó er hún í konungahöllum.
29 Þrír eru þeir, sem tigulegir eru á velli, og fjórir, sem tigulegir eru í gangi:
30 ljónið, hetjan meðal dýranna, er eigi hopar fyrir neinni skepnu,
31 lendgyrtur hesturinn og geithafurinn og konungur, er enginn fær móti staðið.
32 Hafir þú heimskast til að upphefja sjálfan þig, eða hafir þú gjört það af ásettu ráði, þá legg höndina á munninn!
33 Því að þrýstingur á mjólk framleiðir smjör, og þrýstingur á nasir framleiðir blóð, og þrýstingur á reiði framleiðir deilu.