Orðskviðirnir. Chapter 2
1 Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér,
2 svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum,
3 já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,
4 ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
5 þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.
6 Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.
7 Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,
8 með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu.
9 Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni,
10 Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg.
11 Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig,
12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals,
13 sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins
14 sem hafa gleði af því að gjöra illt, fagna yfir illsku hrekkjum,
15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni,
16 til þess að frelsa þig frá léttúðarkonu, frá blíðmálugri konu sem annar á,
17 sem yfirgefið hefir unnusta æsku sinnar og gleymt sáttmála Guðs síns,
18 því að hús hennar hnígur í dauðann, og brautir hennar liggja niður til framliðinna,
19 þeir sem inn til hennar fara, snúa engir aftur, og aldrei komast þeir á lífsins stigu,
20 til þess að þú gangir á vegi góðra manna og haldir þig á stigum réttlátra.
21 Því að hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.
22 En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.