Sálmarnir. Chapter 58
1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.
2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.
4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.
11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.