Sálmarnir. Chapter 137
1 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: 'Syngið oss Síonarkvæði!'
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: 'Rífið, rífið allt niður til grunna!'
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.