Síðari Kroníkubók. Chapter 1

1 Salómon sonur Davíðs festist í konungdómi, og Drottinn, Guð hans, var með honum og gjörði hann mjög vegsamlegan.
2 Og Salómon lét boð fara um allan Ísrael, til þúsundhöfðingjanna og hundraðshöfðingjanna, dómaranna og allra höfðingjanna í öllum Ísrael, ætthöfðingjanna,
3 og fór Salómon síðan og allur söfnuðurinn með honum til fórnarhæðarinnar í Gíbeon, því að þar var samfundatjald Guðs, það er Móse, þjónn Drottins, hafði gjöra látið á eyðimörkinni.
4 Örk Guðs hafði Davíð þar á móti flutt frá Kirjat Jearím, þangað er Davíð hafði búið henni stað, því að hann hafði reist tjald fyrir hana í Jerúsalem.
5 Eiraltarið, er Besaleel Úríson, Húrssonar, hafði gjört, var og þar, frammi fyrir bústað Drottins, og Salómon og söfnuðurinn leituðu hans þar.
6 Og Salómon færði Drottni fórnir þar á eiraltarinu, er heyrði til samfundatjaldinu, og færði hann honum þar þúsund brennifórnir.
7 Þá nótt vitraðist Guð Salómon og sagði við hann: 'Bið þú þess, er þú vilt að ég veiti þér.'
8 Og Salómon svaraði Guði: 'Þú auðsýndir Davíð föður mínum mikla miskunn, og þú hefir gjört mig að konungi eftir hann.
9 Lát þá, Drottinn Guð, fyrirheit þitt til Davíðs föður míns standa stöðugt. Því að þú hefir gjört mig að konungi yfir lýð, sem er margur eins og duft jarðar.
10 Gef mér þá visku og þekkingu, að ég megi ganga út og inn frammi fyrir lýð þessum. Því að hver getur annars stjórnað þessum fjölmenna lýð þínum?'
11 Þá mælti Guð við Salómon: 'Sakir þess, að þetta bjó þér í hjarta, og þú baðst eigi um auðlegð, fé og sæmd, eða um líf þeirra, er hata þig, og baðst eigi heldur um langlífi, heldur baðst þér visku og þekkingar, að þú gætir stjórnað lýð mínum, er ég hefi gjört þig að konungi yfir,
12 þá er viska og þekking veitt þér, og auðlegð, fé og sæmd vil ég veita þér, meiri en haft hefir nokkur konungur á undan þér og meiri en nokkur mun hafa eftir þig.'
13 Síðan hélt Salómon burt frá fórnarhæðinni í Gíbeon, frá staðnum fyrir framan samfundatjaldið, til Jerúsalem, og ríkti yfir Ísrael.
14 Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.
15 Og konungur gjörði silfur og gull eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.
16 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir,
17 svo að hver vagn, er þeir fengu og komu með frá Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.