Síðari Kroníkubók. Chapter 22

1 Síðan tóku Jerúsalembúar Ahasía, yngsta son hans, til konungs eftir hann, því að ræningjaflokkurinn, er komið hafði til herbúðanna ásamt Aröbunum, hafði drepið alla þá, er eldri voru, og þannig tók Ahasía ríki, sonur Jórams Júdakonungs.
2 Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí.
3 Hann fetaði líka í fótspor Akabsættar, því að móðir hans fékk hann til óguðlegs athæfis með ráðum sínum.
4 Og hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, eins og ættmenn Akabs, því að þeir voru ráðgjafar hans eftir dauða föður hans, sjálfum honum til tjóns.
5 Að þeirra ráðum var það og, að hann fór herför með Jóram Akabssyni Ísraelskonungi í móti Hasael Sýrlandskonungi, til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram.
6 Þá sneri hann aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er hann hafði fengið við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann lá sjúkur.
7 En það var að Guðs tilstilli, til hrakfara fyrir Ahasía, að hann fór til Jórams. Þegar hann var þangað kominn, fór hann með Jóram á móti Jehú Nimsísyni, er Drottinn hafði smyrja látið til þess að afmá Akabs ætt.
8 Og er Jehú háði dóm yfir Akabsætt, hitti hann hershöfðingja Júdamanna og bræðrasonu Ahasía, er þjónuðu Ahasía, og lét drepa þá.
9 Síðan lét hann leita Ahasía, og var hann handtekinn, en hann hafði falið sig í Samaríu. Var hann færður Jehú og drepinn. En síðan jörðuðu menn hann, því að þeir sögðu: 'Hann er afkomandi Jósafats, þess er leitaði Drottins af öllu hjarta sínu.' En enginn var sá af ætt Ahasía, er fær væri um að taka við konungdómi.
10 Þegar Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsætt Júda.
11 Þá tók Jósabat, dóttir Jórams konungs, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig fól Jósabat, dóttir Jórams konungs, kona Jójada prests, hann
12 Og hann var hjá þeim á laun sex ár í musteri Guðs, meðan Atalía ríkti yfir landinu.