Síðara bréf Páls til Tímóteusar
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar
2 Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.
4 Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði
5 er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.
6 Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.
7 Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.
8 Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.
9 Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,
10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.
11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.
12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.
13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.
14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.
15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.
16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn,
17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig.
18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.